Tveir sektaðir fyrir að festa ekki börnin

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði þrjá ökumenn í síðustu viku fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Sá fjórði er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna en hann hafði ekið utan í bíl á Hellisheiði. Ekki urðu slys á fólki í þeirri ákeyrslu.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að tveir ökumenn voru sektaðir í síðustu viku fyrir að aka með börn í bílum sínum án þess að þau væru fest með viðeigandi öryggisbúnaði.

Þá kærði lögreglan fjóra fyrir hraðakstur í síðustu viku en fjölmargir voru stöðvaðir við umferðareftirlit og reyndust flestir með sitt í lagi. Helst voru gerðar athugasemdir við ljósabúnað, þar sem það átti við.

Fyrri greinSautján í einangrun í Þorlákshöfn
Næsta greinNettó styrkir Sjóðinn góða