Sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi nutu aðstoðar Björgunarfélags Árborgar í gærkvöldi þegar tvær beiðnir um sjúkraflutning komu frá HSu. Flytja þurfti þungaða konu á kvennadeild Landspítalans og slasaðan einstakling á slysadeild í Fossvogi.
Vegna slæms skyggnis og töluverðrar snjókomu á fjallvegum var búið að loka Hellisheiði og Þrengslum. Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgissgæslunar en beiðnin var svo afturkölluð þar sem ekki var um neyðarflutning að ræða.
Bráðatæknir og ljósmóðir fóru því með í för, til að tryggja að allt færi vel ef til fæðingar kæmi. Jafnframt var sjúkraflutningamaður með í för í björgunarsveitabíl Björgunarfélags Árborgar.
Snjómoksturstæki og stjórnstöð Vegagerðarinnar, ásamt aðgerðastjórn björgunarsveita á svæði 3 aðstoðuðu við skipulagningu svo allt gengi hratt og vel fyrir sig.
Flutningurinn yfir heiðina gekk vel og tók um eina og hálfa klukkustund, og þá var eftir að koma bílum og mannafla til baka aftur.
Í tilkynningu frá sjúkraflutningunum segir að þetta sýni hversu mikilvægt það er að hafa öflugar björgunarsveitir sem eru tilbúnar til þess að bregðast við þegar á þarf að halda, ásamt góðu samstarfi við aðra viðbragðsaðila.