Beita þurfti klippum til að ná ökumanni út úr bíl sem valt tvær eða þrjár veltur útaf Suðurlandsvegi við Kjartansstaði í Flóahreppi laust fyrir hádegi í dag.
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins en tilkynnt var um tvo einstaklinga fasta í bíl en báðir voru með meðvitund. Farþeginn komst sjálfur út úr bílnum en klippa þurfti toppinn af bílnum til að ná ökumanninum út.
Þarna voru á ferðinni erlendir ferðamenn, karl og kona, og voru þau flutt með sjúkrabílum á slysadeild í Reykjavík. Meiðsli þeirra reyndust að öllum líkindum ekki alvarleg.
Lögreglan á Selfossi rannsakar tildrög slyssins en töluverð hálka var á slysstaðnum. Líklegt er talið að ökumaðurinn hafi misst bílinn út í vegbrúnina og rykkt honum aftur inn á veginn með þessum afleiðingum.