Lögreglan á Suðurlandi kærði 24 ökumenn fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Flestir þeirra voru ferðamenn á leið sinni um landið.
Lögreglumenn í Vík og á Kirkjubæjarklaustri settu upp umferðarpóst á nýársnótt og leiddi það til þess að einn ökumaður var stöðvaður grunaður um að vera bæði ölvaður og undir áhrifum kannabisefna. Hann framvísaði jafnframt kannabisefnum sem hann hafði meðferðis til eigin nota að sögn.
Annar ölvaður ökumaður var stöðvaður á nýársnótt á Selfossi. Þar var á ferðinni erlendur ferðamaður að njóta áramótanna á ferðalagi sínu.
Á mánudaginn í síðustu viku stöðvaði lögreglan ökumann á Selfossi, sem var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann og farþegi hans framvísuðu báðir efnum sem þeir kváðu ætluð til eigin neyslu.