Skálaverðirnir í Langadal í Þórsmörk eru með tvo yrðlinga í fóstri sem hafa vakið mikla lukku hjá ferðamönnum.
„Það var grenjaskytta sem kom með þá hingað til okkar. Þeir eru tveggja vikna gamlir og hafa braggast vel en við gefum þeim hvolpa blautfóður að borða,“ sagði Andri Johnsen í samtali við sunnlenska.is en hann er skálavörður í Langadal ásamt Margréti Ívarsdóttur.
„Þetta er bara til gamans gert, yrðlingarnir hafa vakið athygli og mikla lukku hjá ferðamönnum,“ segir Andri sem veit ekki hver afdrif yrðlinganna verða. „Það verður bara að ráðast. Þeir eru gæfir eins og hvolpar núna en það kemur að því að rándýrseðlið tekur yfir.“