Um 280 björgunarsveitamenn úr 28 björgunarsveitum leituðu í um 20 klukkustundir að manni og tveimur konum sem saknað var að Fjallabaki frá því kl. 2 sl. nótt.
Önnur konan fannst um miðjan dag á gangi við Emstruleið, ofan við Einhyrning. Hún var köld og hrakin en annars við góða heilsu. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með konuna á sjúkrahús í Reykjavík þaðan sem til stóð að útskrifa hana í kvöld eða á morgun.
Síðdegis fannst bíll fólksins bensínlaus og mannlaus í Hvanngili við Stórusúlur. Hin konan fannst látin við Bláfjallakvísl, sem er þar skammt frá.
Þegar kvöldaði bættust fleiri björgunarsveitarmenn í hópinn og um kl. 21:30 fannst svo maðurinn, 4-5 km suður af bílnum. Hann var einnig látinn.
Leitarsvæðið afmarkaðist af Mýrdalsjökli, Markarfljóti og Mælifellssandi og voru leitarskilyrði ágæt fyrir vélsleða og skíðamenn þar sem snjór var yfir öllu. Meðan á leitinni stóð gekk á með kröppum éljum en á milli var bjart og leitaraðstæður þokkalegar.
Karlmaðurinn fór ásamt konunum að gosstöðvunum á páskadag. Snemma aðfaranótt mánudags hafði hann samband við lögregluna á Hvolsvelli. Hann hafði þá fest bíl sinn og taldi sig kominn á aurana innan við Tröllagjá, sem er innan við Gilsá og á leiðinni að Einhyrningi.
Lögregla og björgunarsveitir gerðu þá fimm tíma árangurslausa leit á svæðinu. Ökumaðurinn var þó í næstum stöðugu símasambandi við lögreglu. Um klukkan 6:30 í gærmorgun hringdi maðurinn svo í lögregluna og afþakkaði aðstoð. Hann kvaðst þá búinn að losa bíl sinn og vera kominn á slóða.
Þegar ekkert hafði heyrst til fólksins um kl. 2 síðastliðna nótt fóru ættingjar fólksins að grennslast fyrir um það og leit hófst að nýju. Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð til leitar úr lofti og björgunarsveitir á bílum og snjósleðum leituðu á jörðu niðri.
Ekki er unnt að greina frá nafni hinna látnu að svo stöddu.