Um tvö þúsund manns borða daglega hjá mötuneytum leik- og grunnskólanna í Árborg. Nú er unnið að því að samræma betur innkaup og matseðla skólamötuneytanna í sveitarfélaginu.
„Þegar allt er talið saman eru þetta í kringum tvö þúsund manns og þar er starfsfólk skólanna einnig talið með,“ segir Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, í samtali við Sunnlenska.
Sú krafa kom fram hjá bæjarfulltrúum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2016 að innkaup og matseðlar mötuneytanna yrðu betur samræmdir.
„Við höfum þegar haldið samstarfsfund með skólastjórnendum og yfirmönnum skólamötuneyta þar sem við ræddum innkaupamál fyrir mötuneytin, matseðla og fleira. Eftir fundinn hefur fjármálasvið kortlagt birgja, matráðar haldið samstarfsfund og póstlisti verið útbúinn sem auðveldar samstarf á netinu,“ segir Þorsteinn.
Hann segir bréf í smíðum til allra birgja þar sem leitað verður eftir afsláttarkjörum fyrir alla skóla sveitarfélagsins.
En hvað um þá hugmynd að hafa sameiginlegt eldhús fyrir leik- og grunnskólana? „Það væri eflaust hægt að fækka eldhúsum til að hagræða enn meira í rekstri en það er ekki á döfinni hér í Árborg. Það hefur þó aðeins verið gert, til að mynda er eldað fyrir leikskólann Álfheima í Vallaskóla. Kannski væri hægt að stíga fleiri slík skref en það hefur þó ekki verið ákveðið og öll slík skref þarf að stíga í góðri sátt við viðkomandi skólasamfélag.“
Þorsteinn segir að þrátt fyrir að mikilvægt sé að fara vel með opinbert fé þá megi ekki missa sjónar af mikilvægi þess að nemendur fái hollan og góðan mat í skólunum.
„Einnig er mikilvægt að starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar vinni vel saman í þessum málum eins og svo víða í skólastarfinu með velferð nemenda að leiðarljósi,“ segir Þorsteinn.