Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa tvívegis verið kallaðar út vegna slysa á Suðurlandi það sem af er degi. Um miðjan dag slasaðist kona í Reynisfjöru og skömmu síðar varð umferðarslys við Úlfljótsvatn.
Klukkan hálf þrjú óskaði Neyðarlínan eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna konu sem slasaðist í Reynisfjöru. TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, var send á staðinn og sótti konuna við Skógafoss.
Þegar þyrlan tók á loft frá Skógafossi barst önnur beiðni frá Neyðarlínunni, nú vegna bílslyss við Úlfljótsvatn og aftur var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Ákveðið var að TF-GNÁ héldi í átt að Úlfljótsvatni en TF-SYN var sömuleiðis kölluð út með hæsta forgangi og send á staðinn. Konan um borð í TF-GNÁ var lærbrotin og var ákveðið að hún færi með TF-SYN frá Úlfljótsvatni áleiðis á Landspítalann.
Læknirinn um borð í TF-GNÁ gat því hugað að þeim sem lentu í bílslysinu á Úlfljótsvatni en þyrlan tók á loft þaðan með tvo slasaða klukkan 16:35 og lenti laust fyrir klukkan 17:00 við Landspítalann í Fossvogi.