Þrennt, tvær konur og einn karl, var handtekið í sumarbústað í Miðengi í Grímsnesi skömmu eftir miðnætti í nótt.
Tilkynning barst lögreglu um að viðvörunarkerfi hefði farið í gang í bústað á svæðinu. Skömmu síðar varð vart við hreyfingu í bústaðnum sem þremenningarnir voru handteknir í.
Í bifreið sem þeir handteknu komu á fundust ýmsir munir sem gætu verið þýfi. Fólkið gisti fangageymslur á Selfossi og var yfirheyrt í dag.
Rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun, sunnudag, bárust innbrotsboð frá þjófavarnakerfi í kaffihúsinu Gömlu Borg við Minni Borg í Grímsnesi. Í ljós kom að brotist hafði verið inn og þaðan stolið skiptimynt úr sjóðsvél.
Öryggisvörður sem fór á staðinn mætti á leið sinni rauðri fólksbifreið. Þegar lögregla var kölluð til var þjófurinn á bak og burt.