Tvö ný minkabú munu vera í undirbúningi á Suðurlandi núna að því er heimildir Sunnlenska herma. Annað mun vera í uppsveitunum en hitt við ströndina.
Að sögn Einars E. Einarssonar loðdýraræktarráðunauts er mjög jákvætt að búum sé að fjölga en horfur í greininni eru ágætar núna. Um leið eru eitt eða tvö bú í undirbúningi á Norðurlandi.
Eftir því sem Sunnlenska kemst næst er hér um að ræða nýja aðila í greininni sem hyggjast hefja starfrækslu minkabúa samhliða öðrum búskap. Einar sagði að nýleg skinnauppboð í Danmörku hefði gengið vel og skilaverð til bænda væri gott. Það yki mönnum bjartsýni og augljóst að margir væru að hugsa sér til hreyfings.