Kórónuveirusmit kom upp á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í gærkvöldi. Tveir heimilismenn greindust með jákvætt smit, en annar þeirra var nýkominn af Landakoti.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Allir heimilismenn á Sólvöllum fara nú í einangrun og starfsfólk heimilisins fer í skimun. Á Sólvöllum eru 17 heimilismenn og 24 starfsmenn. Aðstandendur voru einnig látnir vita.
Jóhanna Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur á heimilinu, segir í samtali við mbl.is að enginn grunur hafi verið á smiti þegar viðkomandi kom inn á heimilið, og hafi hann því ekki verið í sóttkví.