Biskup Íslands hefur auglýst eftir prestum í tvö störf á Suðurlandi, sóknarprest í Víkurprestakalli og sóknarprest í Skálholtsprestakalli.
Störfin hafa verið laus síðan á síðasta ári eftir andlát sr. Egils Hallgrímssonar í Skálholti og starfslok sr. Haraldar M. Kristjánssonar í Vík. Þau voru þó ekki auglýst fyrr en nú vegna ráðningarbanns sem var í gildi hjá Þjóðkirkjunni og rann það út 1. janúar.
Í Víkurprestakalli eru sex sóknir með átta guðshúsum. Íbúar í sókninni eru 1.062 og þar af eru 513 sem tilheyra þjóðkirkjunni. Prestsbústaður er í Vík og þar er starfsaðstaða sóknarprestsins.
Skálholtsprestakall er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli. Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru tólf kirkjur. Prestakallinu fylgir vaktsími sem er fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, lögreglu og aðra viðbragðsaðila vegna bráðaútkalla, vitjana, slysa og andláta í Árnessýslu. Prestsbústaður og starfsaðstaða er í Skálholti og telur sóknarnefnd nauðsynlegt að presturinn hafi fast aðsetur í Skálholti.
Umsóknarfrestur um störfin er til 24. janúar næstkomandi.