Brunavarnir Árnessýslu fengu tvö útköll vegna sinubruna á fyrsta klukkutíma ársins 2013, bæði í uppsveitunum.
Þegar tólf mínútur voru liðnar af nýja árinu var tilkynnt um eld í sinu við Minni-Mástungu í Gnúpverjahreppi og var óttast að eldurinn hefði læst sig í palli á sumarbústað en þar reyndist ekki hætta á ferðum.
Rúmum 40 mínútum síðar voru svo slökkvilið BÁ á Laugarvatni, Flúðum og í Reykholti kölluð út vegna sinuelds við Efsta-Dal austan við Laugarvatn. Hrunamenn þurftu því aðeins að bíða í 55 mínútur eftir útkalli frá BÁ en slökkvilið Hrunamanna sameinaðist Brunavörnum Árnessýslu nú á miðnætti.
Í báðum tilvikunum var um minniháttar eld að ræða þar sem kviknaði í út frá flugeldaglóð.