Að sögn Björgvins Þórs Harðarsonar, svínabónda í Laxárdal í Gnúpverjahreppi, hefur hann tvöfaldað kornsáningu sína á milli ára.
Að þessu sinni sáði hann byggi í um 203 hektara lands sem er nánast tvöföldun frá síðasta ári. Einnig sáir hann nokkru af hveiti núna en á síðasta ári náði hann að þreskja hveiti af um 20 hekturum. ,,Eins og verðið er á svínakjöti núna verðum við að leita allra leiða til að lækka fóðurkostnað. Það er ljóst að reksturinn stendur ekki undir innfluttu fóðri,” sagði Björgvin.
Landbúnaðarráðherra er núna að láta skoða möguleika á því að styrkja kornrækt hér á landi og sagði Björgvin að þeir kornbændur fylgdust með því af áhuga. ,,Það væri óskandi ef það kæmu til einhverjir styrkir fyrir kornræktina. Eins og staðan er núna má ekkert útaf bregða í ræktuninni til að ná endum saman.”