Farþegafjöldi Herjólfs hefur tvöfaldast frá því að Landeyjahöfn var vígð fyrir einu ári síðan.
Ríflega 260.000 manns hafa siglt með ferjunni síðastliðið ár en fyrir tveimur árum var heildarfjöldi farþega milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja 130.000.
Samkvæmt gögnum frá Eimskip hefur Herjólfur siglt 1.127 ferðir af 1.175 á fyrsta ári Landeyjahafnar, en fella þurfti niður 48 ferðir eða 4,1% ferða. Heildarfjöldi ferða samsvarar því að siglt hafi verið þrisvar sinnum á dag hvern dag ársins. 791 ferð var farin til Landeyjahafnar, eða 67,3% ferða, en 336 til Þorlákshafnar, eða 28,6% ferða.
Farþegafjöldi hefur aukist til muna. Árið 2009 flutti Herjólfur 127.624 farþega um Þorlákshöfn. Aðeins fleiri farþegar fóru um Landeyjahöfn seinni hluta síðasta árs, 146.716. Í heildina voru farþegarnir 211.940 í fyrra.
Eftir opnun Landeyjahafnar í maí síðastliðnum hafa 82.756 farþegar siglt með Herjólfi. Heildarfarþegafjöldi farþega á þessu ári er svipaður og á heilu Þorlákshafnarári áður, 120.132.