Það er ýmislegt sem finnst í rotþróm en þessi giftingarhringur fannst í einni slíkri þegar hreinsibíll var að tæma þró í Hrunamannahreppi í vikunni.
Hringurinn var auglýstur í Facebooksíðu Hrunamannahrepps í dag en um var að ræða karlmannshring og inni í honum stendur nafnið Guðlaug María, ásamt dagsetningu.
Útsjónarsamur Facebooknotandi sendi skilaboð á allar þær Guðlaugar Maríur sem hún fann á Facebook og fannst eigandinn í kjölfarið.
Hringurinn týndist fyrir nokkrum árum þegar húsbóndinn var að gera að fiski og voru þau hjónin að sjálfsögðu í skýjunum með að hringurinn væri fundinn.