Björgunarsveitir frá Vík, Hellu og Hvolsvelli leita nú að erlendum ferðalangi sem týndur er í grennd við Fimmvörðuháls.
Maðurinn hugðist ganga hálsinn en villtist af leið. Hann hóf tilraunir til að hringja í Neyðarlínu eftir aðstoð á sjöunda tímanum í kvöld en sökum lélegs símasambands á svæðinu náði hann ekki sambandi fyrr en klukkan 10 í kvöld.
Maðurinn segist kaldur og hrakinn en getur ekki gefið neinar upplýsingar um staðsetningu sína aðrar en þær að hann sé staddur á ís. Þykir það benda til þess að hann hafi villst upp á Mýrdals- eða Eyjafjallajökul. Sími hans hefur verið miðaður út og samkvæmt því virðist hann vera staddur sunnanmegin í öðrum hvorum jöklinum.