Guðmundur Úlfar Gíslason, í Glámu í Fljótshlíð, hefur verið ráðinn sem byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra og Margrét Jóna Ísólfsdóttir á Uppsölum hefur verið ráðin sem skrifstofu- og fjármálastjóri sveitarfélagsins.
Ráðningarskrifstofan Intellecta sá um framkvæmd við báðar ráðningar. Alls sóttu níu aðilar um stöðu skipulags- og byggingarfulltrúa og sjö um stöðu skrifstofu- og fjármálastjóra.
Guðmundur Úlfar hóf formlega störf þann 1. október síðastliðinn en hann tók við starfinu af Antoni Kára Halldórssyni. Ólafur Rúnarsson verður áfram aðstoðarmaður byggingar- og skipulagsfulltrúa. Úlfar er með MSc próf í byggingarverkfræði með sérhæfingu í mannvirkjahönnun og hefur starfað sjálfstætt síðastliðið ár. Kona Úlfars er Guðlaug Ósk Svansdóttir, ráðgjafi hjá Háskólafélagi Suðurlands, og eiga þau þrjú börn.
Margrét Jóna tekur hún við starfinu af Ágústi Inga Ólafssyni þann 15. nóvember næstkomandi. Margrét er viðskiptafræðingur að mennt og hefur síðastliðin ár gegnt stöðu hótelstjóra Hótel Fljótshlíðar í Smáratúni. Maður Margrétar er Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS og eiga þau tvær dætur.