Enn dregur verulega úr bílaumferð á Suðurlandi. Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni var umferð um Suðurland 9% minni í febrúar sl. heldur en í sama mánuði í fyrra.
Þannig fóru 4.437 bílar um Hellisheiði að jafnaði á degi hverjum í febrúar sl. en þeir voru 4.955 í febrúar 2010. Til samanburðar fóru 5.481 bílar um heiðina í febrúar 2007.
Umferð er einnig mæld á þjóðveginum um Mýrdalssand og á þjóðvegi 1 austan Hvolsvallar. Þar dróst umferð einnig saman. Um Mýrdalssand fóru 166 á dag og fækkaði um 14, og austan Hvolsvallar fóru að meðaltali 1.274 bílar um á dag í febrúar síðastliðnum en voru 1.327 á sama tíma í fyrra.
Kemur fram í skýrslu Vegagerðarinnar að áfram er talið að dragi úr umferð um allt land á næstu árum.