Umfangið margfalt meira en í hefðbundnu hlaupi

Frá jökulhlaupinu í ánni Skálm 27. júlí sl. sunnlenska.is/Marinó Fannar Garðarsson

Vatnshæð og rafleiðni í Skálm hefur minnkað talsvert síðan í gær og áfram dregur úr áhrifum hlaupsins sem kom undan Sandfellsjökli í gær. Engin merki sjást um hlaupvatn í Jökulsá á Sólheimasandi eða Múlakvísl.

Lítil skjálftavirkni mældist undir jöklinum í gærkvöldi og nótt. Undir morgun mældust nokkrir skjálftar, sá stærsti um 2,9 að stærð um kl. 6. Engin breyting varð á óróa í kjölfarið.

Merki um hlaupóróa mældust við Goðabungu í vestanverðum Mýrdalsjökli í gærkvöldi og hefur rafleiðni og vatnsrennsli í Markarfljóti aukist lítillega síðasta sólarhringinn. Miðað við óróann sem mældist í gærkvöldi mun það vatnsmagn ekki skapa neina hættu á svæðinu.

Líkt og gerðist í kjölfar stóra hlaupsins sem var í Múlakvísl 2011, má búast við því að virkni í Mýrdalsjökli haldist há með skjálftavirkni og tíðum minni jökulhlaupum í ár sem renna úr jöklinum.

Óljóst hvað olli svo stóru hlaupi
Hlaupið í Skálm í gær var óvenju stórt miðað við venjubundin hlaup á þessum slóðum. Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að á þessu stigi sé ekkert hægt að fullyrða hvað olli því að þetta mikið magn af hlaupvatni kom undan jöklinum. Það er þó ljóst að talsverð virkni hefur verið í norðurenda Kötluöskjunnar og olli því að hlaupvatn kom undan Mýrdalsjökli bæði vestan megin og austan megin.

Á gervitunglamyndum sést að sig hefur orðið í þekktum hlaupkötlum á Mýrdalsjökli. Það er hins vegar óljóst hvað veldur því að þetta mikið hlaupvatn ryðst fram niður í Skálm á þetta skömmum tíma. Að öllu jöfnu þurfa um 2 milljónir rúmmetra af vatni að safnast saman í kötlum Mýrdalsjökuls áður en það hleypur fram. Miðað við fyrsta mat af umfangi hlaupsins í Skálm er um margfalt meira magn að ræða en í hefðbundnu hlaupi.

Vísindamenn munu leggjast yfir þau gögn sem safnast hafa til að fá betri mynd af því hvað orsakaði svo stórt hlaup. En eins og kom fram í fréttum í gær sjást engin merki í gögnum Veðurstofunnar um að eldgos hafi orsakað jökulhlaup að þessu sinni.

Fyrri greinGul viðvörun vegna mikillar rigningar
Næsta greinFyrsta fjallahlaupið í Kerlingarfjöllum heppnaðist frábærlega