Framkvæmdum við tvöföldun fyrsta áfanga Suðurlandsvegar er að ljúka, og verður umferð hleypt á kaflann á næstu dögum.
Í dag er eitt ár og fimm dagar síðan starfsmenn Ingileifs Jónssonar hófu vegagerðina sem kostar í kringum 1.200 milljónir króna.
Stefnt er að því að hleypa umferð á nýja vegininn, sem er rúmlega 6 km langur, öðru hvorum megin við helgi.
Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, vonast til að slysum muni fækka verulega með tilkomu nýja vegarins. „Að öðru leyti er þetta mun greiðari umferð gagnvart framúrakstri, til dæmis fram úr hægfara bílum og slíkt sem var oft erfitt á gamla veginum“ sagði hann í viðtali við fréttastofu RÚV.
Þótt umferð verði hleypt á kaflann innan skamms er framkvæmdum ekki lokið, og mun vinna standa yfir eitthvað fram á vetur.
Í undirbúningi er að gera svonefndan 2+1 veg frá Svínahrauni yfir Hellisheiði og að Kömbum og þar tæki svo tvöfaldur vegur við sem lægi að Hveragerði og svo áfram að Selfossi. „Þessar tímasetningar liggja ekki fyrir, áætlanirnar munu væntanlega skýrast mjög í vetur í vinnunni á Alþingi,“ segir Jónas. Hann býst við að á næstu fimm til tíu árum verði þessum framkvæmdum lokið.