Umferðin í mars á Hringveginum jókst um ríflega 20 prósent frá sama mánuði í fyrra. Aldrei hefur mælst jafn mikil aukning milli mánaða á Hringveginum. Umferðin um Mýrdalssand jókst t.d. um heil 83 prósent.
Mismunandi tímasetning páska skýrir þetta ekki að öllu leyti og verður að telja líklegt að umferð erlendra ferðamanna skýri aukninguna að miklu leyti. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.
Svona mikil aukning hefur aldrei áður mælst á milli mánaða á Hringvegi. Umferðin eykst gríðarlega á öllum landssvæðum en mest um Austurland eða um tæp 54% og næst mest um Suðurland eða um tæp 33%.
Ekki er óeðlilegt að umferð sveiflist mikið milli ára yfir vetrartímann en þessi sveifla umfram það sem venjulega má eiga von á, þrátt fyrir mismunandi staðsetningu páska milli ára. Í sögulegu samengi var mars á síðasta ári rétt yfir meðaltali áranna á undan, en nýliðinn mars reyndist 11% stærri en metmars-mánuðurinn árið 2008.
Umferð um Mýrdalssand hefur verið að aukast gríðarmikið undanfarin ár, t.d. jókst umferðin þarna um 77% milli aprílmánaða 2013 og 2014.