Eins og búist var við áttu mjög margir leið um Árnessýslu um helgina og lögreglan hélt uppi öflugu umferðareftirliti. Tilkynnt var um átta slys um helgina.
Á föstudag og mánudag bauð Landhelgisgæslan og Ríkislögreglustjóri þyrlu til umferðareftirlits. Um miðjan dag á föstudag og laugardag var mjög þétt umferð í gegnum Selfoss en lögreglumenn voru á ferð um Austurveg og liðsinntu ökumönnum. Með þeim hætti var komið í veg fyrir tafir og umferðin flaut vel áfram án hnökra.
Buster, fíkniefnahundur lögreglunnar á Selfossi, var á vaktinni í Árnessýslu um helgina. Hann gaf vísbendingu um fíkniefni hjá fjórum einstaklingum. Hjá einum þeirra fundust um 30 grömm af kannabis. Lögreglunni á Selfossi bárust 18 kærur vegna hegningarlagabrota.
Tilkynnt var um átta slys um helgina, öll í sumarbústaðabyggðum eða nágrenni þeirra. Í fjórum tilvikum var um ung börn að ræða. Tveggja ára barn féll aftur fyrir sig á hnakkann og annað á sama aldri slasaðist á róluvelli, fimm ára barn féll tvo metra úr koju niður á gólf í sumarbústað, ekið var á sjö ára dreng á Flúðum og 11 ára stúlka fótbrotnaði eftir stökk úr 3ja metra hæð ofan í Litlu Laxá við Flúðir.
Liðna helgi voru fimm ökumenn kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefn, fimm fyrir ölvunarakstur og 22 fyrir hraðakstur.