Umferðin gengur hægt yfir Heiðina

Umferðin yfir Hellisheiði hefur gengið hægt nú síðdegis vegna mikillar snjókomu. Mikil umferð er að venju á þessum tíma á Heiðinni og nokkrir ökumenn lent í vandræðum.

Unnið er að mokstri en færið er þungt og bílaraðir mjakast yfir fjallið. Nokkrir hafa flotið upp í krapa og lent utan vegar og þá voru vörubílstjórar í vandræðum á leið upp Hveradali um klukkan 17.

Litlu fyrr þurfti að loka Þrengslunum um stund á meðan verið var að aðstoða bíl sem þveraði veginn. Vegurinn var opnaður aftur á sjötta tímanum.

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi vegna snjókomu en veglegur úrkomubakki gengur yfir landið í kvöld. Spáð er allt að 30 sm jafnföllnum snjó í uppsveitum Árnessýslu.

Fyrri greinHluti Selfosslínu 1 lagður í jörð
Næsta greinUnnur styrkir Flugbjörgunarsveitina á Hellu