Þrír tæknifræðingar frá Háskólanum í Reykjavík eru nú á ferð í kringum landið á rafbíl. Þeir komu við í Hveragerði og á Hvolsvelli í vikunni.
Bílinn smíðuðu tæknifræðingarnir Guðjón Björnsson, Hjörtur Gestsson og Hrafn Guðjónsson í námi sínu við tækni- og verkfræðideild HR. Á ferðalaginu stoppa þeir í grunnskólum landsins og sýna nemendum bílinn og hvernig þeir fóru að því að breyta honum úr bensínbíl í rafbíl.
Fyrsta stopp var í Grunnskóla Hveragerðis á þriðjudag og síðar sama dag komu þeir við í Hvolsskóla á Hvolsvelli. Bíllinn er umhverfisvænn og í stað þess að fylla hann af bensíni er honum einfaldlega stungið í samband.
Tilgangur fararinnar er að prófa bílinn en ekki síður að vekja áhuga grunnskólanema á tækninámi.