Umhverfisráðherra heimsótti Bláskógabyggð

Hópurinn sem fundaði ásamt umhverfisráðherra. Ljósmynd/Bláskógabyggð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, heimsótti Bláskógabyggð í lok ágúst.

Fulltrúar sveitarfélagsins tóku á móti ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins í blíðskaparveðri við Gullfoss og var haldið þaðan inn á Kjöl, undir leiðsögn Guðrúnar S. Magnúsdóttur, fulltrúa í sveitarstjórn og fjallkóngs, þar sem m.a. voru skoðuð nokkur landgræðslusvæði.

Fundað var í Árbúðum, þar sem staðarhaldarar tóku á móti hópnum með miklum myndarbrag. Á fundinum var rætt m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, friðlýsingu Geysissvæðisins og ræddar hugmyndir um mögulegar breytingar á fyrirkomulagi landvörslu.

Talsverðar umræður urðu um miðhálendisþjóðgarð, en sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur ítrekað ályktað um það mál. Einnig var rætt um loftslagsmál og landgræðslu, m.a. um nauðsyn loftgæðamælinga vegna uppfoks. Loks ræddu fundarmenn um rafvæðingu sem stendur fyrir dyrum á Kili, nauðsyn þess að ríkið styðji við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og um samræmda flokkun sorps á landsvísu.

Fyrri greinÞingvallavegur opnaður formlega – Málþing í Hakinu
Næsta greinSkjálftar í Grafningnum og Ölfusi