Grunnskólinn í Hveragerði hlaut Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar þetta árið en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Sumardaginn fyrsta.
Starfsfólk og nemendur skólans hafa undanfarin ár unnið markvisst að umhverfismálum og náðu meðal annars því markmiði á fullveldisdaginn þann 1. desember að hljóta Grænfánann sem tákn um framúrskarandi starf að umhverfismálum í skólanum.
Í máli Unnar Þormóðsdóttur, formanns bæjarráðs við afhendingu verðlaunanna kom fram að umhverfismál hafa ávallt skipt miklu máli en í nútíma samfélagi er lífsspursmál að gjörðir okkar spilli ekki umhverfi og möguleikum komandi kynslóða til að njóta þeirra gæða sem náttúran hefur gefið okkur öllum. Það er grundvallaratriði í umhverfismálum að börn og ungmenni séu alin upp við meðvitund um að jafnvel hin minnstu atriði skipta máli þegar kemur að umhverfismálum.
Innan Grunnskólans hafa Garðar Árnason og Ari Eggertsson, kennarar, borið hitann og þungann af undirbúningi Grænfánans en svona viðurkenning er afrakstur umfangsmikillar undirbúningsvinnu og mikils vinnuframlags allra sem að verkefninu hafa komið. Það var forseti Íslands hr. Ólaf Ragnar Grímsson sem venju samkvæmt afhenti umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar árið 2012.