Viðurkenningar umhverfisnefndar Árborgar voru afhentar á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september síðastliðinn. Þrenn verðlaun voru veitt og ein sérstök viðurkenning.
Verðlaunin fyrir fallegasta garðinn í Árborg og komu í hlut hjónanna Sigríðar Tómasdóttur og Guðmundar Halldórsson að Sunnuvegi 16 á Selfossi. Sigríður og Guðmundur hlutu sambærilega viðurkenningu frá Selfossbæ árið 1980 og hafa sannarlega ræktað vel sinn garð frá þeim tíma. Garðurinn er einstaklega fallegur og þar má finna fjölær skrautblóm, trjátegundir og matjurtir. Grasflatirnar eru snyrtilegar og rammaðar inn af fallegum fjörusteinum.
Snyrtilegasta fyrirtækið að mati umhverfisnefndar var Hrafntinna Villa, sem er fallegur gististaður í Byggðarhorni sunnan Votmúlavegar. Hanne Smidesang tók á móti verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins, sem hún veitir forstöðu.
Loks var veitt viðurkenning til fallegustu götunnar í Árborg. Það var Grenigrund á Selfossi sem að þessu sinni þótti fallegasta gatan og það voru að venju yngsti og elsti íbúinn við götuna sem tóku við verðlaununum fyrir hönd íbúanna. Grenigrund var einnig valin fallegasta gatan árið 2004 og er augljóst að mikil samstaða er meðal íbúa við götuna um að halda umhverfinu snyrtilegu.
Þá hlaut Sigtún þróunarfélag sérstaka viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til betra samfélags og bættrar ásýndar bæjarins með uppbyggingu nýs miðbæjar Selfoss. Það voru þeir Vignir Guðjónsson og Guðjón Arngrímsson sem veittu viðtöku koparskildi sem steyptur var að þessu tilefni.