Umræða um göngubrú tekin upp á ný

Ölfusárbrú. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær að senda erindi á Vegagerðina og óska eftir viðræðum um göngubrú yfir Ölfusá, við hlið núverandi brúar.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni en Guðni Ágústsson, þáverandi þingmaður Sunnlendinga, viðraði hana fyrst fyrir 33 árum síðan. Árið 2011 lögðu þingmenn Suðurkjördæmis fram þingsályktunartillögu um byggingu slíkrar brúar.

Í greinargerð með tillögu bæjarráðs segir að rökin með byggingu göngubrúar hafi alltaf verið góð, með vísan til umferðaröryggis fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, enda hafi umferð um brúna aukist með hverju árinu.

Þó að ný brú yfir Efri-Laugardælaeyju verði byggð á næstu árum telur bæjarráð að umferð yfir núverandi brú verði áfram mikil og brýnt sé að aðskilja gangandi og hjólandi vegfarendur frá öðrum akstri fyrir brúna.

Um leið væri hægt að nýta göngubrúna sem aukna flutningsleið fyrir heitt og kalt vatn, en burðargeta Ölfusárbrúar í dag er að mestu fullnýtt.

Fyrri greinFortis bauð lægst í steypuvinnu
Næsta greinSunnlensku liðin töpuðu naumlega