Námsárangur í dagskóla í Fjölbrautaskóla Suðurlands var töluvert verri á nýliðinni vorönn heldur en á síðustu vorönnum og má að einhverju leiti rekja það til væntanlegra breytinga á námsskrá.
Þórarinn Ingólfsson, aðstoðarskólameistari FSu, fjallaði um málið í annarannál sínum við brautskráningu nemenda síðastliðinn föstudag.
„Við höfum haft áhyggjur af námsárangri nemenda vegna þess róts sem hefur verið á önninni í tengslum við breytingarnar. Þær áhyggjur voru ekki ástæðulausar og kemur það fram þegar við förum yfir námsárangur annarinnar,“ segir Þórarinn.
„Við upphaf annar lögðu nemendur í dagskóla undir 14.134 einingar og undir lok annar höfðu nemendur staðist 10.866 einingar. Þetta táknar að rétt rúmlega 23% eininga höfðu tapast á önninni. Til samanburðar má geta þess að vorið 2013 töpuðust rúmlega 22% eininga og vorið 2014 rúmlega 20%,“ bætir Þórarinn við.
Ný námsskrá tekur gildi í haust og eru breytingarnar talsverðar frá eldri námsskrá. Nám til stúdentsprófs verður styttra og val nemenda verður meira.
„Nemendur okkar völdu í fyrsta skiptið samkvæmt nýrri námskrá nú á vordögum og komu upp margar spurningar í tengslum við það. Heiti áfanga eru breytt, áföngum raðað á þrep og ekki er sjálfgefið hvaða áfangi er undanfari að öðrum, sem setur nemendur oft í vanda, vegna þess að þeir átta sig ekki á hvað þeir eiga að velja næst,“ segir Þórarinn en bætir við að starfsfólk skólans hafi verið duglegt við að aðstoða nemendur við valið og einnig hafi Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, farið um sveitir Suðurlands og kynnt námsframboðið fyrir grunnskólanemendum og foreldrum þeirra.
Á níunda hundrað nemenda stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Starfsmenn skólans voru rúmlega 130 á síðustu önn og þar af voru starfandi kennarar 74.