Undanfarin ár hafa Rauði krossinn, kvenfélögin, Lions, sóknir þjóðkirkjunnar og fleiri aðilar sem sinna líknarmálum og félagslegri aðstoð í Árnessýslu, haft með sér samvinnu um aðstoð fyrir hátíðarnar til handa þeim sem höllum fæti standa í aðdraganda jóla og eiga ekki fyrir nauðþurftum.
Enn fremur hefur félagsþjónusta sveitafélaganna í sýslunni komið að starfi sjóðsins sem gengur undir nafninu „Sjóðurinn góði“.
Hægt verður að sækja um styrk í sjóðinn dagana 28. nóvember til og með 6. desember nk. Í Selfosskirkju verður aðeins tekið á móti umsóknum þriðjudag og miðvikudag, 4. og 5. des., kl. 11:30-14:00. Stefnt er að því að úthlutunum verði lokið þann 15. desember.
Sóknarprestar viðkomandi sóknar eru með umsóknareyðublöð og þeir taka einnig við umsóknum og aðstoða við umsóknarferlið. Afar mikilvægt er að umsækjendur virði umsóknarfrestinn sem fram kemur hér að ofan.
Öll framlög í sjóðinn góða er vel þegin, reikningsnúmer sjóðsins er 325-26-444 og kennitalan er 620780-2279.