Fæðingum á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur fækkað umtalsvert á milli ára. Í ár hafa 95 börn komið í heiminn á HSu.
„Stefnan í byrjun árs var að fá 100 fæðingar í ár og við erum að nálgast það óðfluga. Þetta er að sjálfsögðu fækkun frá því í fyrra enda eiga ekki allar konur sem það kjósa kost á að fæða hjá okkur,“ sagði Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir, í samtali við sunnlenska.is.
Árið 2009 fæddust 162 börn á HSu en eftir að vaktir skurðlæknis, fæðingarlæknis og svæfingarlæknis voru lagðar af sl. vetur hefur fjöldi barnshafandi kvenna þurft að leita til Reykjavíkur eða jafnvel upp á Akranes.
„Við vonumst til að einhverjar fæðingar bætist við áður en árið er liðið því enn eru þrjár konur á tíma fyrir áramót,“ segir Sigrún.
Árið hófst með hvelli því flest börn komu í heiminn á HSu í janúar, fimmtán talsins. Segja má að því hafi svo lokið með annarri fæðingarsprengju því sjö börn fæddust á sjö dögum fyrir jól þar af tvö á aðfangadag.
„Já, það var mjög líflegt hjá okkur þegar jólin voru að nálgast,“ segir Sigrún og bætir við að ljósmæðurnar vonist til að fara yfir 100 fæðingar á næsta ári.