Alls fæddist 51 barn á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi á árinu 2018, 23 stúlkur og 28 drengir.
Þetta er umtalsverð fækkun frá árinu áður, en árið 2017 fæddust 72 börn á Selfossi.
„Árið 2018 fæddi hjá okkur 51 kona og við virðumst ekki fylgja landstölunum því allstaðar var fækkun árið 2017 en fjölgun hjá okkur og svo aftur fækkun hjá okkur árið 2018 þegar á flestum öðrum fæðingardeildum var fjölgun á milli ára,“ sagði Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir HSU, í samtali við sunnlenska.is.
„Við skýrum þetta af eðlilegum sveiflum milli ára sem og því að konur á meðgöngu eru með fleiri vandamál en áður og eiga þá ekki kost á því að fæða á fæðingarstað D eins og okkar deild er,“ segir Sigrún en allar mögulegar áhættufæðingar eru sendar á Landspítalann.
Þegar sunnlenska.is ræddi við Sigrúnu í gær var nýársbarnið ekki fætt en þrjú börn fæddust á Selfossi yfir hátíðarnar, þar af eitt á aðfangadag.