Una því ekki að heimili og fyrirtæki líði fyrir gallaða löggjöf

Reykholt. Ljósmynd/Bláskógabyggð

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirra miklu hækkana sem urðu á raforkuverði nú um áramótin. Ein af grunnstoðum sveitarfélagsins er garðyrkja en tveir af þremur þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins byggjast upp á garðyrkju sem skapar yfir 100 störf í sveitarfélaginu.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í gær.

„Langflest garðyrkjubýlin treysta á vaxtarlýsingu í sínum rekstri. Hætta er á að samkeppnisstaða þessara fyrirtækja muni versna til muna við þessar verðhækkanir raforku. Aukin umræða hefur verið í samfélaginu og hjá ríkisvaldinu um fæðuöryggi og er nauðsynleg forsenda þess að grunnatvinnugreinar á sviði matvælaframleiðslu sem reiða sig á raforku hafi tryggt aðgengi að henni. Ekki er unnt að una því að þau fyrirtæki, svo og heimilin í landinu, skuli líða fyrir gallaða löggjöf sem ekki tekur á því að stórnotendur geti komist inn á smásölumarkað sem er ætlaður heimilum og minni fyrirtækjum,“ segir í ályktun sveitarstjórnar sem hvetur nýmyndaða ríkisstjórn til þess að taka hratt og örugglega á því ástandi sem er að skapast á raforkumarkaði hér á landi.

„Sífelldar og ófyrirsjáanlegar verðhækkanir eru ekki boðlegar fyrir almenning og fyrirtæki. Ljóst er að ylræktin getur ekki tekið þátt í þessu kapphlaupi um raforkuna og verður að horfa sérstaklega til hennar til að tryggja henni áframhaldandi mikilvægan sess í þjóðfélaginu,“ segir ennfremur í ályktun sveitarstjórnar.

Fyrri greinCargow Thorship siglir til Þorlákshafnar
Næsta greinFSu og ML áfram í Gettu betur