Lögreglan á Suðurlandi kærði 54 ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Af þeim voru 37 á ferð um Árnessýslu, ellefu í Rangárvallasýslunum og sex í Skaftafellssýslunum.
Einn þessara ökumanna er grunaður um að hafa verið undir áhrifum við akstur bifreiðar sinnar á 132 km/klst hraða um Suðurlandsveg og sviptur ökurétti að auki.
Í ár hafa 1.062 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu og er það nokkru lægra miðað við síðasta ár þegar 2.200 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt allt það ár og 2.185 allt árið þar á undan.
Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiðar sinnar án þess að hafa til þess handfrjálsan búnað og einn fyrir að nota ekki öryggisbelti við aksturinn.