Stefnt er að því að opna nýtt glæsihótel á Leirubakka í Landsveit á næsta ári. Ekki tekst að opna hótelið í vor eins og áður hafði verið ráðgert.
„Undirbúningur verkefnisins er á fullri ferð,“ sagði Anders Hansen sem rekur nú þegar hótel á Leirubakka. „Við vonumst til þess að ekki sé mjög langt í að framkvæmdir geti hafist. Það er verið að teikna hótelið og útfæra það betur.“ Anders sagði að hótelið yrði að minnsta kosti 44 herbergja og með sex svítur að auki. Hugsanlega gætu herbergin orðið 66 en svíturnar sex. Ákvörðun um það yrði tekin á næstu vikum.
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir Anders að undirbúningur hefði gengið vel þrátt fyrir nokkrar tafir og menn væru staðráðnir í að reisa hótelið.
„Ástæða tafanna er sú að við erum með erlenda fjárfesta með okkur. Hjá þeim hafa vaknað margar spurningar varðandi ástandið á Íslandi og regluverkið sem við búum við núna og hvort það muni breytast,“ sagði Anders.