Undirbúningur hafinn að breikkun Þjóðvegar 1 austan við Selfoss

Við Skeiðavegamót. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Á síðasta stjórnarfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var lagt fram erindi frá Vegagerðinni þar sem fram kemur að vinna sé hafin við undirbúning á breikkun Þjóðvegar 1 frá Selfossi að Þjórsá.

Stjórn SASS fagnaði þessu en ályktað var um mikilvægi þessarar framkvæmdar á ársþingi samtakanna síðasta haust. Stjórnin hvetur framkvæmdaaðila til að huga að umferðaröyggi eftir fremsta megni við hönnun gatnamóta en í ljósi tíðra slysa undanfarin misseri sé ljóst að gera þarf mikla bragabót við mörg gatnamót t.d. með gerð hringtorga eða mislægra gatnamóta.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps fagnaði sveitarstjórnin því sömuleiðis að undirbúningur við þessa framkvæmd sé hafin.

„Það er von okkar að í þessari framkvæmd verði gert ráð fyrir úrbótum á Skeiðavegamótum sem eru gríðarlega hættuleg vegamót, þar sem því miður mörg alvarlega slys hafa orðið. Með góðri hönnun mun þessi aðgerð auka umferðaröryggi til mikilla muna og verða Hrunamönnum sem og öðrum sem um þennan veg þurfa að fara til mikilla hagsbóta,“ segir í bókun hreppsnefndar Hrunamannahrepps.

Fyrri greinÓskarssynir sameinaðir á Stokkseyri
Næsta greinÓlýsanleg gleði að fá Bjart aftur heim