Undirbúningur fyrir bæjarhátíðina Sumar á Selfossi er í fullum gangi en hátíðin verður haldin dagana 7.-11. ágúst. Hún hefst nú á miðvikudegi og lýkur á sunnudegi.
Miðvikudagurinn verður menningarlegur en þá verða meðal annars tónleikar með Kristjönu Stefánsdóttur og Svavari Knút í Tryggvaskála. Á fimmtudagskvöldið verða glæsilegir tónleikar í bæjargarðinum þar sem margar af efnilegustu hljómsveitum landsins koma fram og á föstudagskvöldið mun KK Band halda tónleika í stóra tjaldinu í bæjargarðinum svo eitthvað sé nefnt.
Laugardagurinn hefst eins og venjulega á morgunmat í miðbænum en eftir hádegi verður fjölbreytt fjölskyldudagskrá. Kvöldinu lýkur síðan með sléttusöng og flugeldasýningu en um leið og síðasta bomban springur telur Stuðlabandið í fyrsta lag í stóra tjaldinu.
Hinn árlegi Delludagur er síðan haldinn á sunnudeginum en þar munu bílaáhugamenn og ökuþórar slá botninn í dagskrá helgarinnar með reykspóli og drulluaustri.
Íbúar á Selfossi eru hvattir til að huga tímanlega að skreytingum en hverfalitirnir eru þeir sömu og í fyrra. Þeir sem vilja fylgjast vel með undirbúningnum geta leitað uppi “Sumar á Selfossi” á Facebook.