
Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps undirritaði í dag, fyrir hönd sveitarfélagsins, viljayfirlýsingu um fjölgun íbúða í Vík.
Verkefnið felst í byggingu 16-20 íbúða fjölbýlishúss þar sem Brák leigufélag mun kaupa tíu til tólf íbúðir með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi.
Yfirlýsingin er undirrituð af fulltrúum Mýrdalshrepps, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (og byggingaraðilans SV3 ehf. en ákveðið var að ganga til samninga við fyrirtækið í kjölfar þess að auglýst var eftir áhugasömum byggingaraðilum í desember síðastliðnum.
Verkefnið er unnið á grundvelli samnings sem sveitarfélagið og innviðaráðuneytið samþykktu í nóvember síðastliðnum um íbúðauppbyggingu til næstu 10 ára og er í samræmi við húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.
Vonir standa til þess að framkvæmdir geti hafist um mitt ár í ár og að þeim verði lokið um mitt ár 2025.