Ungar stúlkur í sjálfheldu

Fjórar 10-12 ára stelpur lentu nú síðdegis í vandræðum fyrir ofan sumarbústaðahverfi í landi Snorrastaða, austan við Laugavatn. Voru þær villtar í myrkrinu en tvær þeirra skiluðu sér síðan í bústað og létu vita að hinar væru í sjálfheldu í fjallinu.

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út en í fyrstu var talið að leita þyrfti að stúlkunum þar sem staðsetning þeirra var ekki ljós. Lögreglan fór strax áleiðis upp fjallið og heyrði til stúlknanna. Hjá þeim er nú líka einn fullorðinn einstaklingur sem fór að leita þeirra.

Mikill klaki og hálka er í hlíðinni og eru björgunarmenn á leið upp á broddum. Þegar þeir koma á svæðið verður tekin ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort óhætt sé að leiða fólkið niður hlíðina eða hvort fara þarf upp fyrir það og setja upp tryggingar og línur til að koma þeim niður.

Fyrri greinSelfoss og HK skiptu með sér stigunum
Næsta greinHúsráðandi forðaði stórtjóni