Þrír drengir, níu til tólf ára, unnu talsvert tjón á verkstæði smíðaverktaka á Selfossi í gærkvöldi eftir að hafa brotið sér leið inn á verkstæðið.
Drengirnir skemmdu verkfæri, efni og fleira. Þeir settu einnig lyftara í gang og óku honum á bifreið sem var inni á verkstæðinu.
Forráðamenn drengjanna voru kallaðir til ásamt barnaverndaryfirvöldum sem fóru yfir málið með lögreglu.
Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að ljóst sé að fjárhagslegt tjón vegna skemmdarverkanna sé talsvert.