Hersir, félag ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, hefur áhyggjur af yfirstandandi verkfalli kennara við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Verkfall kennara við FSu hefur staðið yfir í þrjár vikur og að frumkvæði Hersis ákvað hópur nemenda að mæta í skólann í dag til að ræða óréttlátar aðgerðir KÍ gagnvart nemendum FSu.
„Hersir virðir verkfallsrétt kennara en telur að honum sé beitt á óréttlátan máta í þessu tilfelli. Hingað til hafa nemendur FSu verið einu framhaldsskólanemar á landinu sem hafa verið undir höggi verkfallsaðgerða kennara, þangað í dag þegar að kennarar við Menntaskólann í Reykjavík hófu verkfall,“ segir í tilkynningu frá Hersi.
„Okkur þykir aðferðir Kennarasambands Íslands að fara í verkfallsaðgerðir gagnvart einstaka skólum vera óréttlátar, enda hefur verkfallið gífurleg áhrif á nemendur og námsferil þeirra. Verkfallsaðgerðirnar virðast ekki hafa verið til þess fallnar að ýta við undirritun kjarasamninga kennara við ríkið og sveitarfélög. Lítið hefur farið fyrir aðgerðunum í opinberri umræðu. Ábyrgð beggja aðila er rík og hvetjum við þá til þess að ná saman sem allra fyrst þannig að nemendur geti snúið aftur í skólann,“ segir ennfremur í tilkynningu Hersis.