Skólastjórnendur í Vallaskóla á Selfossi fengu þær upplýsingar í morgun að fyrsta COVID-19 smit starfsmanns við skólann væri staðfest.
Frá því samkomubann var sett á hefur nemendum verið skipt í ákveðin rými í skólanum en starfsmaðurinn sem veiktist var í hólfi 4 á unglingastigi, 8.-10. bekk.
Allir nemendur og kennarar í unglingadeild í því hólfi eru komnir í sóttkví frá og með deginum í dag og fram að páskafríi, alls 208 nemendur og 19 starfsmenn.
Skólastjórnendur vinna málið í samvinnu við rakningarteymi sóttvarnarlæknis en aðrir hafa á þessari stundu ekki verið settir í sóttkví.
Samkvæmt upplýsingum frá því í gær voru 59 smit staðfest á Suðurlandi og 798 manns í sóttkví, flestir í Vestmannaeyjum. Sé tölunum frá Vallaskóla bætt við þessa jöfnu eru yfir eittþúsund manns á Suðurlandi í sóttkví í dag.