Fjórtán og fimmtán ára unglingar skáru niður regnbogafánana á Hellu aðfaranótt síðasta mánudags. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Fréttin komst á flug eftir að sunnlenska.is greindi frá henni á þriðjudagsmorgun en alls var skorið á bönd á samtals níu fánastöngum þar sem regnbogafánar blöktu við hún. Fánarnir lágu á jörðinni þegar að var komið og einn fannst í ruslatunnu við skattstofuna.
Málið hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi í vikunni og hefur rannsóknin „miðað að því að afla allra tiltækra gagna um verknaðinn og öll nánari atvik sem ætla má að skipt geti máli, þ.á.m. hvaða hvatir bjuggu að baki,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Málið telst nú upplýst og í hefðbundnu afgreiðsluferli hjá lögreglu og barnavernd.