Í byrjun desember var gengið frá samkomulagi þess efnis að Ungmennafélag Selfoss taki að sér umsjón og ábyrgð á Selfossþorrablótinu.
Kjartan Björnsson hefur haft veg og vanda að Selfossþorrablótinu allt frá árinu 2002 í samstarfi við EB Kerfi, en sem fyrr segir mun Ungmennafélag Selfoss sjá um blótið eftirleiðis.
Venju samkvæmt verður Selfossþorrablótið haldið í íþróttahúsi Vallaskóla fyrsta laugardag í þorra sem er 24. janúar 2015.
Í fréttatilkynningu frá Ungmennafélagi Selfoss segir að það er mikill áhugi innan ungmennafélagsins að viðhalda þeim sið að bjóða heimamönnum sem og brottfluttum Selfyssingum upp á góða veislu í upphafi þorra.
„Félagið lítur á Selfossþorrablótið sem nauðsynlegan þátt í bæjarbrag Selfoss, þar sem Selfyssingar sameinast í góðri gleði og styðja um leið við gott starf ungmennafélagsins. Við hlökkum til að halda Selfossþorrablótið og taka á móti gestum blótsins í upphafi þorra,“ segir í fréttatilkynningunni.