Ungmennafélag Selfoss hefur óskað eftir undanþágum á skilmálum í rekstrarsamningi félagsins við Sveitarfélagið Árborg um veitingar á léttu víni í Tíbrá, félagsheimili félagsins við Engjaveg á Selfossi.
„Þetta er fyrst og fremst til að salurinn geti nýst undir viðburði á vegum félagsins eða til útleigu þar sem t.d. er boðið upp á léttvín með mat,“ segir Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri ungmennafélagsins, í samtali við Sunnlenska.
Málið hefur í gegnum tíðina verið tekið upp á aðalfundum félagsins en ekki fengist samþykkt fyrr en á aðalfundi í fyrra. Í kjölfarið var óskað eftir viðræðum við bæinn vegna málsins. Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að ræða málið við forsvarsmenn ungmennafélagsins.
Forseti bæjarstjórnar hlynntur
„Ég get sagt að gegn ströngum skilyrðum er ég fylgjandi þessari leyfisveitingu. Þetta tíðkast um allt land í félagsheimilum íþróttafélaganna. Þetta varðar einnig veislur, afmæli og fleira, sem dyggir stuðningsmenn vilja kannski halda í félagsheimilum félaga sinna. Einnig er þetta víða leyft með afmörkuðum hætti á kappleikjum fullorðinna bæði hérlendis og erlendis.
Þetta er vandmeðfarið en með leyfisveitingu hættir einnig pukur og feluleikur með þessar veigar eins og sumstaðar tíðkast og betra að mínu mati að hafa allt upp á borðum ef svo má að orði komast,“ segir Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar og formaður íþrótta- og tómstundanefndar Sveitarfélagsins Árborgar þegar Sunnlenska leitaði eftir hans áliti á málinu.