Fimmtán manna hópur af ungu fólki frá Sveitarfélaginu Árborg hélt til Finnlands fyrr í mánuðinum en markmið ferðarinnar var að kynnast nýrri menningu, ásamt því að kynna sitt land og sína menningu. Erasmus+ var styrktaraðili verkefnisins.
Hópurinn dvaldi í nágrenni við bæinn Mikkeli í Finnlandi og á dagskrá ferðarinnar var bæði „finnskur“- og „íslenskur“ dagur, farið í leiki og escape room gerð. Fjallað var um mannréttindi og farið í dagsferð til Mikkeli þar sem hópurinn heimsótti meðal annars stríðsminjasafn og kirkju.
Kvöldunum var ýmist eytt út á bryggju, í sundi og saunu eða í strandblaki og skemmdi ekki fyrir að veðrið var krökkunum í hag. Ferðin heppnaðist vel og komu ferðalangarnir reynslunni ríkari heim.