Ungt fólk leitar austur fyrir fjall

„Það er veruleg aukning á sölu allra gerða fasteigna fyrir austan fjall, nánast í öllum sveitarfélögum. Eignist seljast orðið frekar hratt þó það sé ekki jafnmikið og fyrir hrun, en gott samt og óskandi að markaðurinn haldi núna stöðugleika.

Stóru þéttbýlisstaðirnir eru vinsælastir en einnig minni staðirnir. Mjög algengt er að fólk á höfuðborgarsvæðinu sé að flytja austur. Það er mikill verðmunur á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og í hverri viku seljum við fólki úr borginni eignir á Selfossi og nærsveitum, fólk sem er að selja blokkarbúð og kaupa einbýli eða gott parhús fyrir svipaðan eða minni pening,“ segir Snorri Sigurfinnsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Bæ á Selfossi þegar hann var spurður um stöðuna á fasteignamarkaðnum á svæðinu.

Nýleg par- og raðhús vinsæl
Steindór Guðmundsson, fasteignasali hjá Lögmönnum á Selfossi, tekur undir orð Snorra um að mikil aukning hafi verið á sölu fasteigna síðustu misseri. „Já, það hefur verið mjög góð sala undanfarið á Selfossi, bæði heimamenn að færa sig milli eigna og talsvert að fólki að flytja bæði af landsbyggðinni og af höfuðborgarsvæðinu. Mikið er af ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði um þessar mundir. Nýleg par- og raðhús eru mjög vinsæl. Mikil eftirspurn er einnig eftir eignum annars staðar á Suðurlandi, sérstaklega í Hveragerði,“ sagði Steindór í samtali við Sunnlenska.

Fyrri greinÖruggt hjá FSu gegn Blikum
Næsta greinBrotist inn í Vínbúðina í Þorlákshöfn