Lögreglan á Suðurlandi kærði 37 ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ungur ökumaður á Suðurstrandavegi hafi þurft að horfa á eftir ökuréttindum sínum eftir að hafa mælst á 154 km/klst hraða þar, en leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Ökumaðurinn var á bráðabirgðaskírteini og þarf því að sækja sérstakt námskeið áður en hann fær útgefin réttindin að nýju.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur bifreiða sinna og einn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.