Þessa dagana er unnið að gerð og viðhaldi sandfangara í fjörunni við Vík í Mýrdal. Sandföngurunum er ætlað að verja ströndina við þorpið en að öðrum kosti vinnur sjórinn stöðugt á landinu.
Eftir Kötlugosin 1918 gekk fjaran fram um eina 500 til 600 m allt fram til um 1970. Þá byrjaði rofið og hafði náð um 350 til 450 m þegar fyrri sandfangarinn var byggður árin 2011-2012. Rofið nam því um 10 m á ári að jafnaði á tímabilinu.
Sandfangarinn hefur sannað gildi sitt og stöðvað landrof á svæðinu milli sín og Reynisfjalls. Nú er einnig verið að reisa annan austar sem á að verja landið milli sandfangarana tveggja, en áfram er ströndin óvarin austar.
Með því að reisa garð beint út frá ströndinni stöðvast sandflutningar með ströndinni vestan við garðana, þar sem suðvestan aldan nær ekki að fanga sandinn og flytja til austurs.
Það er verktakafyrirtækið Suðurverk hf. sem vinnur verkið en þeir hafa mikla reynslu af byggingu brimvarnargarða á suðurströndinni.